mánudagur, maí 29, 2006

Kierkegaard og trú




Þó að Kierkegaard yrði ekki langlífur tókst honum að ljúka furðulega mörgum og djúphugsuðum ritverkum. Í ritum sínum tók hann hvað eftir annað upp umræður um hvað það væri að vera sanntrúaður. Kjarnaatriði í vangaveltum hans um það var að til þess að trúa þarftu að stökkva, þú verður að taka áhættuna af hinu óþekkta. Það hefur verið kallað hið trúarlega stökk eða trúarstökk. Í einfaldaðri útgáfu má segja að hið trúarlega stökk þýði að þú skilur að heimurinn stjórnast ekki af einum saman rökum og skynsemi. Manneskjan er tilfinningavera ekki síður en rökhugsandi vera og hin hreina, sanna tilfinning er ofar öllu öðru. Einungis með því að virða tilfinningarnar geturðu trúað og náð þroska sem manneskja. Til þess þarf kjark til þess að velja sannleikann og bera honum vitni. Til þess þarftu persónuleika sem gerir þér kleift að standa einn gegn hverjum og hverju sem er. Til þess þarftu að viðurkenna að manneskjan sé ábyrg fyrir sjálfri sér og þar með trú sinni og guði sínum. Það er varla hægt að láta stofnanir sjá um þann þátt.