sunnudagur, janúar 28, 2007
Morðin á Sjöundá
Morðin á Sjöundá er glæpur sem er þekktur í Íslandssögunni, en árið 1802 voru tvö drepin á bænum Sjöundá við Rauðasand. Bjarni Bjarnason og Guðrún Egilsdóttir bjuggu þá á hálfri jörðinni og Jón Þorgrímsson og Steinunn Sveinsdóttir á móti þeim á hinum helmingnum.
Í apríl hvarf Jón og var talið að hann hefði hrapað fyrir björg, en þegar Guðrún andaðist snögglega í júní komst kvittur á kreik um að dauðsföllin hefðu varla verið eðlileg. Ennfremur gekk sú saga um sveitina að þau Bjarni og Steinunn væru farin að draga sig saman. Hreppstjóranum var falið að rannsaka málið og skömmu síðar, síðla í september, fannst lík Jóns og voru á því áverkar sem virtust af mannavöldum. Við réttarhöldin játuðu Steinunn og Bjarni að hafa myrt maka sína. Voru málsatvik þau að Bjarni drap Jón með staf og vissi Steinunn af því, en Guðrúnu fyrirkomu þau í sameiningu.
Glæpahjúin voru dæmd til pyntinga og lífláts og að því búnu flutt til Reykjavíkur og höfð í gæslu í tukthúsinu á Arnarhóli á meðan málið fór fyrir Landsyfirrétt og síðan konung eins og aðrir dauðadómar.
Þar með lauk þessari sögu þó ekki, því haustið 1804 tókst Bjarna að strjúka úr fangelsinu. Hann hafði verið í járnum fram í ágúst það ár en þá sleppt úr þeim vegna fótameina. Ætlun hans var að komast til baka vestur í Barðastrandarsýslu og vonaðist hann til að einhver þar myndi rétta honum hjálparhönd. Bjarni var handsamaður í Borgarfirði tveimur vikum eftir að hann strauk og var færður utan til aftöku árið 1804. Skömmu áður hafði Steinunn látist í fangahúsinu og var dysjuð á Skólavörðuholti þar sem ummerki um Steinkudys sáust allt fram á 20. öld. Þá voru bein hennar tekin upp og grafin í vígðri mold.
Rithöfundurinn Gunnar Gunnarsson skrifaði skáldsögu um þessa atburði 1938 sem ber nafnið Svartfugl.
Bloggsafn
-
▼
2007
(26)
-
▼
janúar
(20)
- - Paul Ferinni
- Morðin á Sjöundá
- Slysaskot í Palestínu (Í Víngarðinum)
- There Will Come Soft Rain
- "The Storyteller's Creed"
- The World Is Too Much With Us
- The Wind Trapped Like A Tired Man
- Sólsetur í Amman í Jórdaníu
- "Síminn" er EKKI Landssíminn!!!
- Afabróðir minn samdi þessar vísur
- Proverbs 11:24
- Surtsey
- Tungumálakunnátta tefur fyrir elliglöpum
- The Telephone
- The Splender Falls
- Í grænum mó
- The Show Is Not The Show
- 4 ára
-
▼
janúar
(20)